top of page
  • Forfatterens bildefornsednorge

Úlfhildur álfkona

Oppdatert: 27. jun. 2018

Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.


Einu sinni var bóndi á bæ; hann bjó norður við Mývatn. Það vatn er svo stórt að ekki er minni vegur utan um það en þingmannaleið.


Það bar til einu sinni í byrjun túnasláttar þegar fólk var allt að heyvinnu úti á túninu að kona kemur frá vatninu og stefnir að bænum. Hún gengur til bónda og biður hann að lofa sér að vera í nótt. Bóndi lofar henni það. Hann spyr hana að nafni, en hún kvaðst heita Úlfhildur. Bóndi spyr hana hvaðan hún sé, en hún eyddi því.


Um kvöldið er tekið saman hey hjá bónda og biður Úlfhildur þá um hrífu. Rakar Úlfhildur þá ei minna en [á] við tvo meðalkvenmenn og þó í gildara lagi væru. Næsta morgun vill Úlfhildur raka með hinum vinnukonunum, en bóndi kveðst ekki þurfa þess með og lætur á sér heyra að hann helzt vilji að hún fari burt. Þá fer Úlfhildur að gráta. Lofar þá bóndi henni að vera þennan dag.


Næsta morgun segir bóndi að nú verði hún að fara, en þá fer hún að gráta; kennir þá bóndi í brjósti um hana og leyfir henni að vera viku. Þegar vikan er liðin kveðst bóndi nú ekki lengur geta haldið hana, en það fer eins og fyrr að þá fer Úlfhildur að gráta. Verður það þá úr að hann lofar henni að vera sumarið út og verður hún því mjög fegin.


Öllum á heimilinu líkaði vel við Úlfhildi því enginn þóttist hafa þekkt duglegri, þrifnari eða siðferðisbetri kvenmann. Þegar líður undir haustið er það ráðgjört að Úlfhildur skuli vera árið út og litlu seinna er hún föluð til að vera næsta ár.


Þegar líður að jólum fram þann næsta vetur fær húsfreyja henni skæði til að gjöra úr skó til jólanna handa sér og vinnumönnum þeim tveimur sem hún þjónaði. Hún gjörir skæðin handa vinnumönnunum, en sín skæði lætur hún vera ógjörð. Á jóladaginn fara allir til kirkju nema Úlfhildur er ein heima.


Er nú ekkert til frásagnar þangað til að líður fram að næstu jólum. Húsfreyja fær Úlfhildi skæði eins og fyrra árið til jólanna, en hún gjörir skæði vinnumannanna, en ekki sín skæði.

Á jóladaginn fara allir til kirkju nema Úlfhildur er ein heima. En á jólanóttina þóttist annar vinnumaðurinn hafa orðið þess var að Úlfhildur hefði eitthvað á burt farið og hugsaði sér ef hann yrði henni samtíða næstu jólanótt að gæta betur að hvað henni liði.


Líða nú jólin og veturinn og kemur Úlfhildur sér einkar vel, og þóttust menn ekki vita hennar jafningja fyrir margra hluta sakir. Er ekkert til frásagnar þar til líður að þriðju jólunum. Húsfreyja fær Úlfhildi skæði í jólaskó að vanda og gjörir hún skóna handa vinnumönnunum eins og fyrr, en ekki sína. Húsfreyja mælti við Úlfhildi að nú yrði hún að fara til kirkju á jóladaginn því hún kvaðst hafa mætt álasi af presti fyrir það að hún færi aldrei til kirkju. Úlfhildur talaði fátt um og eyddi því.


Þegar allir eru háttaðir á jólanóttina, en vinnumaður sá vakandi sem áður er um getið, þá fer Úlfhildur á fætur hægt svo enginn heyrir og laumast út úr bænum, en vinnumaður fer á eftir. Hún gengur að vatninu og þegar hún kemur þar tekur hún upp glófa og gnýr þá; verður þegar brú yfir vatnið; gengur hún brúna og vinnumaður á eftir.


Þegar hún er komin yfir vatnið gnýr hún glófana aftur svo brúin hverfur. Úlfhildur heldur áfram ferðinni og sýnist vinnumanni sem hún nú haldi niður í jörðina, og verður dimmt mjög þar sem hún fer. Getur þó vinnumaður séð til hennar og heldur alltaf á eftir.


Þau halda nú lengi áfram ferðinni þangað til smátt og smátt fer leiðin að verða bjartari. Loksins koma þau á slétta og fagra völlu; voru þeir svo fagrir og blómlegir að vinnumaður hafði aldrei séð svo fallegan stað. Beggja megin vegarins var alþakið af fögrum blómum og voru grundirnar ljósbleikar á að líta þegar sólin skein á fíflana og aldinin. Sauðahjörðin lék sér á flatlendinu, en stundum reif hún í sig blómin með áfergju.


Náttúran var yfirhöfuð íklædd hinum fegursta búningi. Á þessu graslendi miðju stóð fögur höll og virtist vinnumanni það vera konungshöll, svo var hún skrautleg til að sjá. Þangað gekk Úlfhildur og inn í höllina. En vinnumaður stóð í afkima fyrir utan.


Hjá höllinni stóð kirkja og var það fögur bygging. Þegar lítil stund er liðin kemur Úlfhildur út úr höllinni íklædd drottningarskrúða og hefur gullhring á hverjum fingri.


Hún ber barn á handlegg sér, en við hina hlið hennar gengur maður með kórónu á höfði og klæddur konungsskrúða; ímyndar vinnumaður sér að þetta sé kóngur og drottning. Þau gengu í kirkjuna og fylgdi þeim mikill fjöldi fólks sem allt var einkar vel búið og var gleðisvipur á öllum.


Vinnumaður gekk nú að kirkjudyrunum og sá hann enginn, og Úlfhildur vissi heldur ekkert af honum. Í þessu bili var tekið til messu og mátti heyra fallegar hörpur og fallegan söng. Barnið sem Úlfhildur hélt á varð óspakt um messuna og hljóðaði; léði hún því þó einn gullhring af hendi sinni, en barnið fleygði honum fram eftir kirkjugólfinu svo vinnumaður gat náð hringnum.


Þegar messan var úti gengu allir úr kirkju og Úlfhildur með hinum velklædda manni inn í höllina, og sýnist þá vinnumanni vera sorgarsvipur á öllum. Að stundarkorni liðnu kemur Úlfhildur í sínum fyrra búningi, gengur frá höllinni og flýtir sér. v Hún fer veginn sama sem hún kom og vinnumaður á eftir. Er ekkert frá sagt fyrr en þau koma að vatninu og leit vegurinn eins út að vatninu eins og fyrr er frá sagt. Við vatnið gnýr hún glófana og þá kemur brúin og ganga þau hana yfir vatnið. Þá gnýr hún glófana aftur og brúin hverfur.


Í þessum svifum flýtir vinnumaður sér á undan Úlfhildi heim og háttar, en hún kemur á eftir og háttar líka, og er þá rétt komið undir dag.


Nú dagar og fer fólk á fætur. Þá mælti húsfreyja við Úlfhildi að nú yrði hún að fara til kirkju í dag. Þá gegnir vinnumaður og segir að hún þurfi víst ekki að fara til kirkju í dag því hún hafi verið við kirkju í nótt.


"Mæltu manna heppnastur ef þú getur sannað," mælti Úlfhildur.


Segir þá vinnumaður alla sögu hvernig til hafi gengið um nóttina og sýnir gullhringinn til merkis. Nú verður Úlfhildur glöð mjög og segir frá hvernig á standi fyrir sér.


Hún kveðst vera kóngsdrottning úr álfheimum, segist hún hafa yrzt við kerlingu, en hún hafi lagt það á sig að hún skyldi alltaf mega vera hjá mönnum (eða í mannheimum) þaðan í frá nema því aðeins að mennskur maður kæmist með henni til álfheima á jólanótt, þeirri fyrstu, annari eða þriðju eftir það á hana var lagt.


Það eina leyfði kerlingin að hún skyldi mega finna mann sinn í þrjár jólanætur. En Úlfhildur kvaðst aftur hafa lagt það á kerlingu að hún skyldi deyja ef hún kæmist úr álögunum.


Úlfhildur mælti við vinnumanninn: "Það mæli ég um að þú verðir hinn mesti gæfumaður héðan í frá, og á morgun skaltu ganga ofan að vatninu; muntu þá finna sjóði tvo; skaltu eiga þann minni, en húsbændur þínir þann stærri."


Síðan bjóst Úlfhildur til ferðar og kvaddi alla með vinsamlegum orðum. Hún flýtti sér og hélt ofan að vatninu og hvarf svo enginn hefur séð hana síðan, en allt heimilisfólkið saknaði hennar.


Daginn eftir gekk vinnumaður ofan að vatninu og fann þar tvo sjóði og voru báðir stórir. Í minni sjóðnum voru gullpeningar en silfurpeningar í hinum stærri. Er sagt að vinnumaður yrði frá þessum tíma gæfumaður alla ævi og endar svo saga þessi.

8 visninger0 kommentarer

Siste innlegg

Se alle

Trollslaget.

Islandsk folkevise med mytologisk innhold. Tryllist tröll í helli hvellum hljóða kvæða grimm mjög dimmum, rymja, glymja, þrymja, þruma þrungið löngum grjót með róti, orða birgðum jötuns játum,

Ólafur Liljurós

Ólafur reið með björgum fram, villir hann, stillir hann, hitti fyrir sér álfa rann, þar rauður loginn brann, blíðan lagði byrinn undan björgunum fram. Þar kom út ein álfamær, villir hann, stillir

Merkidagavísur

Íslenskar þjóð-sögur og sagnir, hefti VII. Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon. Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945. Margar vísur hafa verið til um merkidaga, þar á meðal þessar: Ef blika' er í heiði og

Yorumlar


bottom of page