Már hét maður; hann var höfðingi mikill og bjó á Reykhólum vestra. Hann átti konu þá, er Katla hét; hún var af góðum ættum. Einhverju sinni reið Már sem oftar til alþingis, en Katla var eftir heima.
Meðan Már er burtu, gengur Katla einn morgun til dyngju sinnar og sofnar þegar. Þangað komu og aðrar konur síðar, og sefur hún sem áður. Þegar leið að miðdegi, vilja þær vekja Kötlu, en þess var ekki kostur; hugðu þær Kötlu þá dauða og sögðu fóstra hennar til. Þegar hann kom þar, sem Katla lá, sagði hann, að hún væri ekki dauð, því önd bærðist fyrir brjósti hennar, en hann gæti ekki vakið hana; sat hann svo yfir henni fjögur dægur föst og full. Á fimmta dægri vaknaði Katla og var þá harmfull mjög, en enginn þorði að fregna hana, hvað því olli.
Eftir það kemur Már heim af þingi; þá hafði Katla brugðið háttum sínum, því hvorki gekk hún í móti honum né hneigði honum, er hann kom. Hann leitar þá eftir hjá salkonum hennar, hvað þessu valdi, en þær kváðust ekki vita neitt um það annað en að Katla hefði sofið fjögur dægur, en ekki sagt neinum, hvað fyrir sig hefði borið. Már gekk þá á konu sína um þetta í tómi og spurði, hvað orðið hefði um hana í svefnhöfga þessum, og kvað henni ekki mundi verða mein að mælgi sinni. Katla sagði honum þá upp alla sögu.
"Mér þótti," segir hún, "kona koma til mín í dyngjuna, húsfreyjuleg og orðfögur. Hún kvaðst eiga heima á Þverá skammt héðan og bað mig að fylgja sér á götu. Ég gjörði svo, en hún lagði glófa sína þar, sem ég sat, og sagði, að þeir skyldu verja sætið. Við gengum svo út og komum að vatni einu; þar flaut bátur fagur. Þakkaði hún mér þá fylgdina, en ég bað hana vel fara.
Varð ég þess þá vísari, að hún hét Alvör; bað hún mig taka í hönd sér, og gjörði ég svo. Vatt hún mér þá í bátinn og reri með mig að hólma einum; fann ég þá, að hún réði ein öllu, en ég engu.
Hún gjörði sig þó blíða við mig og kvað sig nauðsyn hafa knúið til þessa, - "og skal ég," segir hún, "fylgja þér heim aftur."
Við komum þá til híbýla hennar í hólmanum; voru þau svo fögur, að ég hef aldrei bjartari bústað litið. Fylgdi hún mér í herbergi eitt, þar sem konur nokkrar voru fyrir, og var þar kerlaug búin og rekkja vel tjölduð. Eftir það var mér borinn víndrykkur, og lagðist ég svo til svefns.
Ég vaknaði við það aftur, að skikkja lá hjá mér, búin skíru gulli, og húsfreyja bar til mín önnur föt gullsaumuð; síðan kastaði hún yfir mig kápu sinni; var hún af guðvef og grátt skinn undir, búin brenndu gulli. Bað hún mig þá eiga þessar gersemar, ef ég vildi; þar með var hringur af rauðagulli, höfuðgull og men, fjögur fingurgull og lindi fagur.
Síðan bað hún mig ganga inn í skála sinn, og varð hún því öllu ein að ráða. Gengum vér þar inn átta konur saman; var þar glæsilega fyrirbúið; skálaveggirnir voru skreyttir gullofnum tjöldum, silfurker á borðum og gullbúin drykkjarhorn og skrautmanna lið mikið fyrir í skálanum. Í öndvegi hinu æðra sá ég hvílu eina; þar lá í maður í silkiklæðum; Alvör tók á honum, vakti hann og nefndi hann Kára.
Hann vaknaði og spurði, hví hún hefði vakið sig eða hvort hún bæri sér nokkur ný tíðindi, - "eða er Katla komin hér í skálann?"
Sá hann á að svo var. Vorum við Kári sett síðan bæði á einn bekk, og bað Alvör menn kalla Kára brúðguma; var svo gjört; tóku menn nú til drykkju, og var drukkið fast um daginn. En er kvöld var komið, sagði Alvör, að ég skyldi hvíla hjá Kára, en ég kvað þess enga von; miklu elskaði ég Már heitara en svo, að ég mætti yndis njóta með öðrum manni. Alvör sagði ég mundi þess aldrei bætur bíða, ef ég yrði ekki við vilja Kára.
Mér varð ráðafátt við þessi orð, því ég þóttist sem einmana í vargaflokki. Þegar ég var gengin til hvílu, kom þar maður til mín og bað mig eiga allt gull sitt og gersemar, en ég gaf honum enga von blíðu minnar. Kári lét mig þá drekka af horni, er hann hafði áður drukkið af, og kvaðst fyrr vildi bíða helstríð en sjá mig hrygga. Bað hann mig þá huggast láta og hét, að mér skyldi verða bráðum fylgt heim aftur.
Var ég svo þar tvær nætur hrygg í huga; enginn vildi þar angra mig, heldur gleðja mig. Segir þá Kári við mig, að við munum eiga son í vonum. Bað hann mig kalla hann Kára. Hann tók þá belti ágætt og hníf og fékk mér; bað hann mig fá það syni okkar, að það fylgdi nafni. Hann bað mig leggja skrúðklæði mín og gersemar allar í skjóðu, og kvaðst hann unna mér þeirra best að njóta.
"Skaltu sýna það allt" segir hann, "Már manni þínum og inna honum satt frá öllu, þó þér þyki það sárt og sviðamikið. Þið skuluð byggja ykkur nýjan bústað yfir á Þverá; muntu finna þar fuglþúfur tvær við endann á skála mínum, og verða það féþúfur ykkar. Þar mun lifna af ykkur mikill ættbogi, er frægur mun þykja. Nú mun ég verða að skiljast við þig og aldrei líta þig augum framar, enda veit ég eigi, hvað langra lífdaga mér verður auðið héðan af."
Síðan leiddi Alvör mig harmfull í huga út; heyrði ég þá brest mikinn í skálanum, er Kári sprakk af harmi mín vegna."
Segja þá sumar sagnir, að hún flytti Kötlu á bátnum sama yfir vatnið og fylgdi henni svo heim að hlaðgarði og tæki aftur glófa sína úr sætinu.
Sagði hún þá við Kötlu að skilnaði: "Farðu heil, Katla, þó ekki hafi ég af syni mínum nema sorgir einar, og njóttu vel gersema þinna."
"Er nú draumur minn á enda," segir Katla, "og vænti ég, Már, þess af drengskap þínum, að þú finnir mér vorkunn, er ég var alls ósjálfráð."
Már bað hana sýna sér gersemarnar, og gjörði hún svo.
Litlu fyrir sumar veturinn eftir fæddi Katla sveinbarn, einkar frítt, og þótti Már sveinninn giftusamlegur.
Var hann kallaður Kári, sem faðir hans hafði fyrir mælt, og lét Már kalla sig föður sveinsins; og reyndist hann honum í öllu betur en móðir hans, er jafnan var fá við hann. Var nú fluttur bústaður þeirra Márs þangað, sem Katla sagði fyrir, og bjuggu þau hjón þar saman og unnu hvort öðru mikið og áttu mikið auðnulag saman.
Commenti