Einu sinni fór maður sunnan af Suðurnesjum norður í land í kaupavinnu. Hann fékk ákaflega mikla þoku, þegar hann kom norður á heiðarnar, svo hann villtist. Gjörði þá hret og kulda.
Lagðist nú maðurinn fyrir og tjaldaði þar, sem hann var kominn. Tekur hann síðan upp nesti sitt og fer að borða. En á meðan hann er að því, kemur inn rakki mórauður í tjaldið og er mjög hrakinn og sultarlegur. Sunnlendingurinn undraðist, að þar skyldi koma til hans hundur, er hann átti engra dýra von. Svo var rakkinn ljótur og undarlegur, að honum stóð stuggur af; ekki að síður gaf hann honum þó svo mikið af nesti sínu sem hann vildi. Át hvolpurinn gráðuglega og fór síðan burtu og hvarf út í þokuna. Maðurinn skipti sér ekki af þessu, en fór að sofa, þegar hann var búinn að borða, og hafði hnakkinn sinn undir höfðinu.
Þegar hann var sofnaður, dreymdi hann, að kona kom inn í tjaldið. Hún var mikil vexti og hnigin á efra aldur.
Hún segir: "Ég þakka þér, maður minn, fyrir hana dóttur mína; en ekki get ég launað þér fyrir hana sem skyldi. Þó vil ég þú þiggir af mér ljáspíkina þá arna, sem ég legg hérna undir hnakkinn þinn. Ég vona hún verði þér að góðu gagni, og mun hún eins bíta, hvað sem fyrir verður. Aldrei skaltu eldbera hana, því þá er hún ónýt, en brýna máttu hana, ef þér þykir þess þurfa."
Síðan hvarf konan burt. Þegar maðurinn vaknaði, sá hann, að upp var létt þokunni og albjart. Sól var hátt á lofti. Varð þá manninum fyrst fyrir að taka hesta sína og búast á stað. Tekur hann þá saman tjaldið og leggur á hestana. En þegar hann tók upp hnakkinn sinn, sá hann þar undir ljá, svo sem hálfsleginn og allliðlegan, en þó ryðgaðan. Man hann þá eftir draumnum og hirðir spíkina. Fer hann svo á braut og gengur vel. Finnur hann bráðum veginn og heldur hið skjótasta til byggða.
En þegar hann kom norður, vildi enginn taka hann, því allir voru þá búnir að fá sér nóg kaupafólk, og líka var þá nærri því liðin vika af slættinum. Hann heyrði þá sagt, að þar sé kona ein í sveitinni, sem engan kaupamann hafi tekið. Hún var auðug af fé, og þótti hún margt kunna. Hún var ekki vön að taka kaupafólk og byrjaði aldrei sláttinn fyrr en viku og hálfum mánuði á eftir öðrum, og þó var hún jafnan eins fljótt búin með tún eins og aðrir. Þá sjaldan hún hafði tekið kaupamenn, hélt hún þá ekki nema eina viku og galt engum kaup.
Sunnlendingnum var nú vísað til þessarar konu og sagt frá siðum hennar. Og af því hann fékk hvergi vinnu, fór hann til hennar og bauðst að slá hjá henni. Hún tók því vel og kvaðst mundi lofa honum að vera eina viku.
"En ei geld ég þér kaup," segir hún, "nema þú sláir svo mikið alla vikuna, að ég geti ekki rakað ljána upp á laugardaginn."
Þetta þótti honum góður kostur og fór nú að slá. Tók hann þá spíkina álfkonunaut, og fannst honum hún bíta vel. Aldrei þurfti hann að brýna, og svona sló hann í samfleytta fimm daga. Þótti honum hér gott að vera, og var konan góð við hann. Einu sinni varð honum gengið út í smiðju. Þar sá hann ógrynni af orfum og hrífum og ljáabunka stóran. Furðaði hann sig á þessu og þótti konan ekki vera á hjarni með amboð.
Á föstudagskvöldið fór hann að sofa, eins og hann var vanur. Dreymdi hann þá um nóttina, að álfkonan, sú sem gaf honum ljáinn, kom til hans og sagði:
"Mikil ljá er nú orðin hjá þér, en ei mun konan, húsmóðir þín, verða lengi að skara henni saman, og þá rekur hún þig burt, ef hún getur náð þér á morgun. Þú skalt því ganga í smiðjuna, ef þú heldur, að ljáin ætli að þrjóta, og taka svo mörg orf sem þér líst og binda ljái í þau og bera þau út í teiginn hjá þér og reyna, hvernig þá fer."
Þegar álfkonan hafði þetta mælt, fór hún burt, en kaupamaðurinn vaknaði og reis á fætur. Fór hann þá að slá. Um miðjan morgun kemur konan út, og hefur hún þá fimm hrífur með sér.
Hún segir: "Mikil er ljáin orðin og meiri en ég hugsaði."
Lagði hún þá hrífurnar til og frá í teiginn og fór að raka. Það sá kaupamaður, að mikið rakaði konan, en ei rökuðu hrífurnar minna, og sá hann þó engan.
Þegar leið fram að miðjum degi, sá hann, að ljáin ætlaði að þrjóta. Gekk hann þá í smiðjuna, tók þar orf nokkur og batt í ljái. Síðan gekk hann út aftur á völlinn og stráði orfunum til og frá með óslægjunni. Fóru þau þá öll að slá, og stækkaði þá bletturinn óðum. Gekk þetta allan daginn til kvölds, og þraut ekki ljáin.
En þegar kvöld var komið, gekk konan heim og tók hrífur sínar. Bað hún þá kaupamanninn að koma heim líka og bera með sér orfin. Sagði hún, að hann kynni meira en hún hefði hugsað og skyldi hann njóta þess og vera hjá sér svo lengi sem hann vildi. Varð hann svo hjá henni um sumarið, og kom þeim vel saman. Heyjuðu þau vel og fóru þó í hægðum sínum. Um haustið galt hún honum kaup geysimikið, og fór hann suður með það.
Sumarið eftir var hann og hjá henni og svo mörg sumur, sem hann fór í kaupavinnu. Seinna meir reisti hann bú á Suðurnesjum og þótti jafnan hinn besti drengur. Hann var besti sjómaður og mesti dugandismaður til hvers, sem hann gekk. Hann gekk ætíð einn að slætti og hafði aldrei annan ljá en spíkina álfkonunaut. Þó var hann jafnan eins fljótur og aðrir að slá tún sitt, en ei hafði hann annað gras en túnið, eins og þar er tíðast.
Eitt sumar bar svo við, að hann var róinn til fiskjar. Þá kom nábúi hans til konu hans og bað hana að ljá sér ljá til að slá með, því hann sagðist hafa brotið spíkina sína og vera ráðalaus.
Konan fór að leita hjá manni sínum og fann spíkina góðu, en engan ljá annan. Hún ljær bóndanum spíkina, en tekur honum vara fyrir að eldbera hana, því það sagði hún, að maður sinn gjörði aldrei. Hann lofaði því og fór heim. Batt hann spíkina í orfið og fór að slá, en náði engu hári af með henni. Reiddist þá bóndi og brýndi spíkina, en það dugði ekki. Fór hann þá í smiðju og ætlaði að dengja spíkina, því hann hugsaði, að ekki væri mikið í húfi, þó hann eldbæri spík þessa. En undir eins og hún kom í eldinn, rann hún niður sem vax og varð að gjalli einu.
Fór þá bóndi og sagði konunni, hvar komið var. Varð hún þá hrædd, því hún vissi, að þetta mundi manni sínum líka stórilla, þegar hann vissi það. Það varð og. Þó er þess ei getið, að hann léti það lengi á sig fá, en samt sló hann þá konu sína fyrir tiltækið, og bar það ekki við, hvorki fyrr né síðar.
Comments