J. Á. I. - Maurer, Magnús Grímsson, Jón Sigurðsson á Gautlöndum, Jón Norðmann ofl.)
Svo er frá sagt, að þau ummæli hafi legið á Málmey í Skagafirði, að þar mætti enginn maður vera lengur en tuttugu ár. - Einu sinni á dögum Hálfdanar prests bjó þar bóndi sá, er Jón hét. Jón hafði reist bú í Málmey og búið þar allan sinn búskap, enda voru nú og liðin þau tuttugu ár, er honum var óhætt þar að vera, og hafði enginn orðið til að áræða að vera þar lengur. En með því Jón bóndi var einarður maður og lagði lítinn átrúnað á hindurvitni, og þess annars, að Málmey var föðurleifð hans og honum hafði liðið þar vel, þá vill hann hvergi fara, og líður svo hið tuttugasta og fyrsta ár fram til jóla, að ekkert ber til tíðinda. En á aðfararkvöld jóla hverfur konan í Málmey, svo að enginn maður vissi, hvað af henni var orðið. Er hennar þó víða leitað. Jóni bónda þykir þetta hið mesta mein og vill fá vissu um, hvernig á hvarfi konunnar stendur. Býr hann því ferð sína á fund Hálfdanar prests á Felli, og er hann kemur þar, boðar hann prest á fund við sig og segir honum sín vandkvæði. Prestur segir, að hann muni að vísu geta sagt, hvað af konunni hafi orðið og hvar hún sé niður komin, en að það sé með öllu árangurslaust fyrir hann, því hann muni héðan af engar nytjar hafa af konunni. Bóndi spyr, hvort hann muni geta svo til stillt, að hann fái að sjá konuna; "Mun mér verða mikið hughægra, ef ég fengi að sjá hana og vita, hvar hún er niðurkomin," segir hann. Prestur segir sér þyki mikið fyrir að veita honum þessa bæn, en hann verði að gjöra það fyrir þrábeiðni hans, og skuli hann koma að ákveðnum degi, þegar allir eru háttaðir. Fer nú bóndi heim aftur og þykir hafa vænkazt sitt ráð. Kemur hann aftur í Fell að ákveðnum tíma, og er prestur á fótum og ferðbúinn. Sér bóndi, að grár hestur stendur norðan undir kirkjugarði með beizli og reiðtygjum. Prestur gengur að hestinum og stígur á bak og segir bónda að setjast upp fyrir aftan sig. "En við því vara ég þig," segir prestur, "að þú talir ekki eitt orð, hvað sem fyrir þig ber eða á gengur, því bregðirðu út af þessu, gildir það líf þitt." Prestur heldur nú af stað með bónda á baki sínu, og undrar bónda mest, hvað hesturinn fer hratt yfir. Fara þeir hina skemmstu leið fyrir utan Dalatá og Siglunes og stefna á Ólafsfjarðarmúla. Þykir bónda nú nóg um, og einhverju sinni er það, að hesturinn eins og kippist við og tekur dýfu mikla, en bóndi verður hræddur og rekur upp hljóð. Prestur kallar upp og segir: "Þar skriplaði á skötu, og haltu kjafti." Er það að máltæki haft síðan, þegar hestar hrasa eða verður fótaskortur. Segir ekki af ferðum framar, fyrr en þeir koma á land norðan undir Ólafsfjarðarmúla. Eru þar hamrar geysimiklir og brattir. Prestur stígur af baki og svo bóndi. Gengur prestur að bjarginu og dregur upp hjá sér sprota einn lítinn. Honum lýstur hann á bergið, og er lítil stund leið, opnast bergið, og koma þar út tvær konur bláklæddar og leiða konu Jóns bónda á milli sín. Er hún orðin næsta torkennileg og ólík því, sem hún var áður, þrútin og blá að yfirlit og hin tröllslegasta. Krossmark var í enni konunnar með réttum holdslit. Sagði svo Hálfdan prestur aftur seinna, er hann var að spurður, að það væri skírnarkrossinn, og að það eitt merki hefði hún haft hinnar fyrri tilveru sinnar. Þegar konan er komin út úr berginu, talar hún til bónda síns og segir: "Þá ertu kominn Jón, og hvað viltu mér?" Bónda varð orðfátt, og spyr prestur hann, hvort hann vilji fá konu sína með sér eða hvort hann vilji nokkuð við hana tala, en bóndi neitar því. Vísar þá prestur konunum aftur inn í bjargið og lýkur aftur eftir þeim og bjó svo um dyrnar, að engum skyldi framar mein verða að konum þessum. En svo hefur Hálfdan prestur frá sagt síðan, að ekki hafi hann troðið upp í rifur allar, því hann hafi aldrei ætlað sér að gjöra við því, sem inn fyki, heldur hinu, sem út færi. Er þar síðan kölluð Hálfdanarhurð norðan í Ólafsfjarðarmúla, þar sem Hálfdan prestur lauk upp bjarginu. Segja svo sannorðir menn, að hún sé rauð að lit og ólík því, sem hitt bergið er, og að með henni séu allmiklar gættir, einkum að neðanverðu, sem Hálfdan prestur hefur ekki við gjört.
Héldu þeir svo aftur hina sömu leið, bóndi og prestur, og komu að Felli fyrir fótaferðartíma. Stíga þeir af baki í hinum sama stað og þeir fóru á bak norðan undir kirkjugarði, og tekur prestur reiðtygi af Grána. En er hann tekur af honum beizlið, slær hann því í lend hans. Gráni kann því illa og slær til prests með afturfæti, en prestur víkur sér undan, og kemur höggið í kirkjugarðinn, og kemur í hann skarð eða skot eftir hóf hestsins. Er svo sagt, að aldrei tolli í þessu skarði síðan, hverra bragða sem í hefur verið leitað með að hlaða upp í. Það er og sagt, að engum hafi orðið meint í Málmey síðan, enda hefur enginn árætt að vera þar lengur en tuttugu ár.
Kommentarer