top of page
  • Forfatterens bildefornsednorge

Um álfa

Oppdatert: 27. jun. 2018

Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar


Álfatrúin hefur hvervetna átt játendur á Íslandi. En þótt hún sé nú að kalla dauð með flestum þeim er trúað hafa tilveru álfa eru þó nokkrar menjar hennar eftir, bæði í sögum þeim sem síðar koma og í nöfnum sem af álfum eru dregin, t.d. álfar, álfafólk, álfakyn, álfatrú, álfkona, auk mýmargra örnefna sem tekið hafa nafn af álfum sem of langt er upp að telja. Þá eru til önnur nöfn um þetta sama kyn, svo sem huldufólk, huldumaður, huldukona o.s.frv. og ljúflingur eða lýflingur; þykja þau nöfn allt mildari og betur hæfa að velja álfum þau er hafa verið álitnir svo voldugar verur að menn hafa bæði borið virðingu fyrir þeim og óttazt þá.


Um bústaði álfa er það að segja að það var trú að þeir ættu híbýli ekki aðeins í hólum og steinum hér og hvar á landi, heldur einnig í sjó (marbendlar) og jafnvel í loftinu. Þessi trú um álfabyggðir í hólum er ævagömul og eldri miklu en kristni kom út hingað sem Ólafs saga Tryggvasonar vottar.


Eins og álfar eru líkir mönnum að skapnaði eru þeir og líkir þeim í háttsemi allri; þeir fæðast eins og menn og deyja eins og þeir, en sagt er að álfar séu miklu langlífari. Álfar éta og drekka og skemmta sér með samsætum, dansi og hljóðfæraslætti, en það er helzt um jólaleytið, og hafa þá oft sézt híbýli þeirra ljósum prýdd, en þó einnig endrarnær, og heyrzt ómurinn af söng þeirra og hljóðfærum. Þá hafa þeir og bústaðaskipti eða halda fardaga. Álfar hafa búsmala og og hafa oft mennskir menn séð hann, kýr og kindur er þeir nytka, og er fénaður þeirra allur vænni og betri til mjólkur og frálags en annar fénaður. Matseld hafa þeir og alla sem mennskir menn og oft hefur strokkhljóð heyrzt í klettum er þar hefur verið gengið fyrir framan. Þeir stunda og slátt og alla vinnu líkömum sínum til viðurhalds. Álfar fara og til fiskifanga og hvalskurðar sem aðrir menn og stunda veiðiskap bæði í sjó og vötnum. Það var almenn trú að álfar væru tvenns konar, sumir góðir, en sumir illir. Góðu álfarnir voru kristnir og héldu vel trú sína; þeir höfðu því kirkjur og klerka og alla helgisiði sem kristnir menn.


Þó álfar séu svo líkir mönnum í sumum greinum sem nú hefur verið sagt eru þeir þó að öðru leyti mjög ólíkir þeim eða vanþekking vor á þeim veldur því að svo virðist. Þeir eru eins konar andar sem mennskir menn fá ekki séð að óvilja þeirra sem nema skyggnir séu eða hafi þeir riðið augnasmyrslum álfa á augu sér. Þeir eru eftir því sem sögur fara af gæddir margfalt meiri hæfilegleikum til sálar og líkama en menn og því mega þeir vinna mönnum bæði gagn og tjón eftir því sem þeir eru skapi farnir. En ef álfar reiðast þó góðir séu leggst hefnd þeirra svo þungt á þann er fyrir henni verður að honum er lítillar líknar von þaðan af.

15 visninger0 kommentarer

Siste innlegg

Se alle

Trollslaget.

Islandsk folkevise med mytologisk innhold. Tryllist tröll í helli hvellum hljóða kvæða grimm mjög dimmum, rymja, glymja, þrymja, þruma þrungið löngum grjót með róti, orða birgðum jötuns játum,

Ólafur Liljurós

Ólafur reið með björgum fram, villir hann, stillir hann, hitti fyrir sér álfa rann, þar rauður loginn brann, blíðan lagði byrinn undan björgunum fram. Þar kom út ein álfamær, villir hann, stillir

Merkidagavísur

Íslenskar þjóð-sögur og sagnir, hefti VII. Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon. Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945. Margar vísur hafa verið til um merkidaga, þar á meðal þessar: Ef blika' er í heiði og

Comments


bottom of page