top of page
Forfatterens bildefornsednorge

Þórður á Þrastastöðum

Oppdatert: 27. jun. 2018

Þórður hét maður; hann bjó á Þrastastöðum á Höfðaströnd í Skagafirði. Hann þótti nokkuð undarlegur í skapi. Það var einn vetur, að hann fór að heiman og ætlaði í kaupstað, en drífa var svo mikil, að mönnum þótti óratandi. Hann bar vörupoka og gengur nú ofan mýrar, því ekki er langt þaðan í Hofsós. Þegar hann er skammt kominn, villist hann, heldur þó áfram til kvölds; þá þykist hann sjá búðir svo háar, að furðu gegndi; gengur hann þangað; er þar ljós í gluggum. Hann gengur að einum, sér þar fólk inni og heyrir hljóðfærasöng og sér dansað.


Hann gengur nú að dyrum og klappar upp á. Strax kemur fram í dyrnar maður á frakka og spyr hann, hvað hann vilji. Þórður sagði sem var um villu sína, og kveðst hann vilja fá sér húsaskjól, ef þess væri kostur. Hinn kvað það til reiðu, - "og fylg þú mér inn með vörupoka þinn. Skal ég á morgun versla við þig, og mun þér ekki verra þykja en í Hofsós."


Þórður trúði varla sjálfum sér, og hélt hann sig væri að dreyma. Nú leiðir frakkamaðurinn Þórð í stofu, þó hann væri ekki tígulega búinn; var þar margt fólk, kona, börn og hjú; var það allt skrautlega búið, sat við söng og gleði.


Frakkamaðurinn eða húsráðandinn mælti til konu sinnar lágt, en þó svo Þórður heyrði: "Hér er kominn maður, lúinn og villtur, og þarf hressingar við. Gjörðu honum eitthvað gott, heillin mín."


Hún kvað hann bágt eiga, stóð upp brátt og sækir honum mat, bæði mikinn og góðan. En húsráðandinn kemur með flösku og staup tvö, skenkir á, drekkur annað sjálfur, en biður Þórð drekka hitt. Hann gjörir það. Þykist hann ei smakkað hafa jafngott vín á ævi sinni. Þar var skemmtan hin mesta, og leiddist Þórði ekki, en kynlegt þótti honum ævintýri sitt. Fær hann nú hvert staupið að öðru; tekur hann að verða drukkinn. Síðan fékk hann gott rúm og svaf af um nóttina.


Um morguninn fékk hann líka mat og vín enn betra en um kvöldið. Síðan gengur húsráðandi með honum út og býður honum að höndla við sig. Þórður þiggur það. Ganga þeir í búðina; er þar alls konar varningur. Þórður leggur inn vörur sínar; tók kaupmaður (réttast nefndur) þær góðum helmingi betur en vani var til í Hofsós.


Þórður tók nú korn í poka sinn og léreft og ýmislegt kram, sem hann þurfti; var það allt með helmingi betra verði en hann hafði vanist, og er hann var búinn, gaf kaupmaður honum sjal handa konunni og brauð handa börnunum, - sagði, að hann skyldi njóta þess, að hann hefði hjálpað syni sínum úr lífsháska. Þórður hélt það ekki verið hafa. Kaupmaður sagði það þó verið hafa.


"Þú varst einu sinni staddur undir Þórðarhöfða. með fleiri mönnum ungum. Þið láguð eftir byr og ætluðuð fram í Drangey. Þeir fóru að leika sér að steinkasti og hæfa þar í klett, en sólskin var heitt; hafði sonur minn lagst til hvíldar undir klettinn, því hann var lúinn og hafði vakað um nóttina. Þú bannaðir mönnunum steinkastið og kvaðst það óþarfa gaman. Þeir hættu að vísu, en höfðu þig í skimpi fyrir tiktúrur þínar og kváðu þig jafnan undarlegan verið hafa. En hefðir þú ekki þetta bannað, mundu þeir hafa drepið son minn."


Að svo mæltu fór Þórður að búa sig á stað; var þá bjart veður. Kvaddi nú Þórður fólkið allt, en kaupmaður gekk með honum á veg og bað hann síðan vel fara og snýr heim síðan. Þórður heldur nú leiðar sinnar. En er hann leit við til kaupstaðarins, sá hann ekkert nema Þórðarhöfðann skammt frá sér; furðaði hann sig mjög og gekk nú heim, fann konu sína, sagði henni frá og sýndi henni varninginn og fær henni sjalið. Hún gladdist við allt þetta og þakkaði manni sínum gjöfina.


Varningur Þórðar gekk víða til sýnis, og hafði slíkur aldrei sést hér á landi og þó víðar væri leitað. Aldrei sá Þórður kaupmanninn né nokkuð af því fólki síðan. En af varningnum átti hann til sýnis alla sína ævi.

4 visninger0 kommentarer

Siste innlegg

Se alle

Trollslaget.

Islandsk folkevise med mytologisk innhold. Tryllist tröll í helli hvellum hljóða kvæða grimm mjög dimmum, rymja, glymja, þrymja, þruma...

Ólafur Liljurós

Ólafur reið með björgum fram, villir hann, stillir hann, hitti fyrir sér álfa rann, þar rauður loginn brann, blíðan lagði byrinn undan...

Merkidagavísur

Íslenskar þjóð-sögur og sagnir, hefti VII. Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon. Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945. Margar vísur hafa...

Comments


bottom of page