top of page
  • Forfatterens bildefornsednorge

Sagnir Eiríks frá Brúnum

Oppdatert: 27. jun. 2018

Nokkrar munnmælasögur um huldufólk, bæði sem ég hef séð og heyrt sagðar. Ég var uppalinn í Hlíð undir Eyjafjöllum í liðug tuttugu ár og heyrði mikið talað um huldufólk þar fjær og nær, þó ég muni fátt af því að skrifa það greinilega. En það, sem ég man og sá sjálfur með mínum eigin augum, vil ég hér tilfæra.


Þegar ég var á tólfta ári, var ég á gangi í góðu veðri skammt frá bænum, mig minnir á góu, seint á degi. Sá ég þá, hvar drengur með lítinn sófl í hendinni rekur þrjár kýr og skítugan vetrung að læk rétt fyrir ofan túnið. Kýrnar og vetrungurinn röðuðu sér að læknum og drukku, og drengurinn stendur þar yfir með sófl í hendinni, liðuga hundrað faðma frá mér.


Mér datt strax í hug, að þessar kýr væri huldufólkseign. Þær voru jafnstórar og okkar kýr, rauðskjöldótt, gráhálsótt og svarthuppótt. Svo hættu kýrnar að drekka, og drengurinn rak þær til baka dálítinn spotta þar að grjótgarði, og var þar lítið hlið á honum, og voru tvær kýrnar komnar í gegnum hliðið. Þá var kallað til mín af bæjarmanni, er sagði: "Hvað ertu að horfa á?" Og þá leit ég til hans.


En er ég leit við aftur að sjá, hvað varð af kúnum, sá ég ekkert, og sá ég þá mikið eftir því, að ég leit af kúnum, því mig langaði að sjá, hvað af þeim yrði.


Þar skammt frá hliðinu eða garðinum var stór steinn grasi vaxinn og stór hola inn undir hann. Okkur krökkunum var alvarlega bannað að fara inn undir steininn eða hafa þar nokkur ólæti; við mundum hafa illt af því, því að þar væri huldufólk.


Í öðru sinni sá ég, hvar kvenmaður var að reka fjórar ær yfir um Húshamra, sem kallaðir eru, fyrir ofan bæinn í Hlíð, og svo rak hún þær yfir annan klett og hvarf þar. Ég þekkti hana ekki; hún átti ekki heima í Hlíð og ekki á bæjunum í kring, því það var huldukona.


Í ungdæmi mínu man ég vel eftir, að ég og allt kirkjufólk og presturinn, séra Ólafur, mig minnir Pálsson, var komið til (Steina) kirkju fyrir dag á hátíðum og byrjað að hringja og embætta í dögun og byrjað á sálminum: Dagur, er dýrka ber o. s. frv.


Þá var ekkert úr né klukka. Þá var farið á fætur um miðnætti, gefið öllum skepnum, lesinn jólanóttarlesturinn í Jónsbók, borðað og búið sig, allt fyrir dag, en ekki var kaffið þá að vekja sig á.


Einn nýársmorgun fyrir dag man ég eftir því, að ég var orðinn kirkjubúinn og stend í bæjardyrunum. Þá var heiðríkja og norðurljós, en ekki tungl. Sá ég þá, að fjöldi af fólki gekk vestur túnið fyrir neðan bæinn. Ég fór inn í bæ og sagði fólkinu, að það væri margt fólk að fara vestur túnið. Nokkuð af fólkinu kom út, og sá enginn neitt, nema húsmóðir mín sá eins og ég, og sagði hún það allt vera huldufólk, er ætlaði til sinnar kirkju; og fólkið var ekkert hlessa á þessu, því það var þá í almæli, að það væri fjöldi til af því. Þetta voru að tölu 20-30 manns, karlar og konur og börn á öllum aldri.


Í Drangshlíð við Eyjafjöll er stór drangur í túninu, því nær tuttugu mannhæðir, og öðrum megin við hann eru hellar og stór ból inn undir hann, og hafa bændur þar allt sitt hey og fjós.


Í fjósinu lifði ekkert ljós, hverninn sem reynt var að halda því lifandi. Aldrei þurfti að vaka þar yfir kú um burð. Ef kýr bar á nóttu, sem oft var, þá var kálfurinn uppi í básnum hjá henni á morgnana, og hankaðist þá kúnum aldrei á. En ef nýr bóndi kom á bæinn og lét af vana vaka þar yfir kú, varð eitthvað að henni, og fólk hélst þar ekki við á nóttunni í dimmunni fyrir ýmislegu, er það sá og heyrði.


Og einn maður í ungdæmi mínu hafði verið í Skarðshlíð, sem vantaði dögum saman, og var hann hjá huldufólki í Drangnum og sagði, að huldustúlka væri að sækja eftir að eiga sig. Og hann sagði þar í drangnum væri margt fólk og gott að vera hjá því; það væri skikkanlegt og reglusamt og fullt svo fallegt fólk sem við. Hann sagði það ætti kirkjusókn í Skóganúp; þar væri stór kirkja og þar væri önnur kirkja í dalnum, því þar væri margt fólk til og frá.


Hann sagði það ætti fé, kýr og hesta og skip og reri karlmenn mjög oft og fiskuðu eins og við og flytti heim á hestum og mjög lík væri öll hentisemi hjá þeim og okkur; það hefði lampaljós og kerti.


Og svo þegar árið var liðið og hann losnaði úr vistinni, - því hann var vinnumaður, - var alskrafað, að hann hafi horfið, og sást ekki meir. Ekki var leitað að honum, því fólk vissi, hvert hann fór, þó hann segði ekki frá því.


Í Skógum var bóndi, er Ísleifur hét, afi Ólafs gullsmiðs í Reykjavík. Hann fór á fjöru einu sinni sem oftar í tunglsljósi og góðu veðri, og er hann kom fram á kampinn, sá hann, að skip var að lenda og að menn voru að bera upp í fjöruna, árar fyrst og svo fisk og lúðu. Hann sagðist hafa farið af baki hestinum og horft á þetta stundarkorn og hugsað með sér: þetta er huldumannaskip og huldumenn - og datt í hug að tala við mennina og gekk niður fjöruna.


Og er hann kom niður að fiskakösinni, þá kippir hesturinn af honum taumunum, svo að hann snýr við og nær hestinum aftur; og er hann lítur við, sá hann ekkert, hvorki skipið, menn né fisk. Þetta hafði verið fram af Skóganúp, þar sem maðurinn sagði, að stóra kirkjan huldufólksins væri. Þessi Ísleifur hafði verið stilltur og óskrafinn maður.


Líka var það í almæli, að ýmsir menn hafi séð mörg skip á sjó einstöku sinnum fram af Eyvindarhólum, þó ekki væri mennskir menn á sjó. En víst er um það, að allir menn sáu þar stórt skarð í brimið alla tíð, eins og nokkurs konar höfn. En ef mennskir menn fluttu þangað skip sín til róðra, skyldi alltaf verða eitthvað að, skipin fyllti af sjó, brotnuðu stundum og lá við manntjóni. Frá þessari höfn sást, að menn fóru með hesta í taumi klyfjaða af fiski upp undir Hrútafellsfjall og hurfu þar.


Undir Eyjafjöllum er hóll, sem kallaður er Hafurshóll, og háir klettar á. Í einum þeira sást ljós alla vetra frá Nýjabæ. Ljósið kom upp í hálfdimmu og lifði til kl. 11-12 á hverju kvöldi og gat ekki verið annað en huldumannaljós.

6 visninger0 kommentarer

Siste innlegg

Se alle

Trollslaget.

Islandsk folkevise med mytologisk innhold. Tryllist tröll í helli hvellum hljóða kvæða grimm mjög dimmum, rymja, glymja, þrymja, þruma þrungið löngum grjót með róti, orða birgðum jötuns játum,

Ólafur Liljurós

Ólafur reið með björgum fram, villir hann, stillir hann, hitti fyrir sér álfa rann, þar rauður loginn brann, blíðan lagði byrinn undan björgunum fram. Þar kom út ein álfamær, villir hann, stillir

Merkidagavísur

Íslenskar þjóð-sögur og sagnir, hefti VII. Safnað og skráð hefur Sigfús Sigfússon. Víkingsútgáfan, Reykjavík 1945. Margar vísur hafa verið til um merkidaga, þar á meðal þessar: Ef blika' er í heiði og

コメント


bottom of page